17.07.2017 19:00

Framundan er hið árlega gæðingamót hestamannafélaganna Smára og Loga. Samningar hafa náðst á milli þeirra við fyrirtækið Landstólpa ehf um kostun á gæðingamótinu.

Mun mótið bera nafnið Landstólpagæðingamót Smára og Loga.

Samningurinn gildir til eins árs en ef vel tekst til er stefnt að þriggja ára samningi. Eru forsvarsmenn hestamannafélaganna mjög ánægðir með samninginn og gott að geta leitað í smiðju fyrirtækis á svæðinu. Með einum styrktaraðila verður allt mun léttara og hægt að einbeita sér að því að gera mótið allt hið glæsilegasta.  

Mótið er opið og er það von aðila að það verði eftirsóknarvert fyrir sterkustu hesta og knapa landsins.  Jafnframt því að vera styrktaraðili mótsins mun Landstólpi veita verðlaunafé að upphæð kr,- 100.000,- fyrir þann sem vinnur Joserabikarinn í tölti fullorðinna.

Ennfremur mun glaðningur frá Josera fylgja verðlaunasætum í öllum flokkum.

Eins og áður hefur verið auglýst verður mótið haldið dagana 22.-23. júlí næstkomandi í Torfdal, Flúðum. Frekari upplýsingar um mótið má sjá á heimasíðu og fésbók félaganna.

Það er von mótshaldara að vel takist til og mótið verði bæði knöpum, hestum og áhorfendum til gleði og skemmtunar. 

Flettingar í dag: 149
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 296
Gestir í gær: 99
Samtals flettingar: 1972783
Samtals gestir: 283489
Tölur uppfærðar: 22.7.2019 08:08:32