Færslur: 2013 Júní
26.06.2013 11:00
Nýjar myndir frá Brokki og skokki
Nýjar myndir frá Brokki og skokki.
Það eru komnar inn nýjar myndir í myndaalbúm, hér til hægri á síðunni. Myndaalbúmið heitir Brokk og Skokk. Njótið myndanna og hugið að undirbúningi fyrir næsta ár.
17.06.2013 15:43
Brokk & Skokk
Næsta sunnudag, þann 23. júní verður blásið til nýstárlegrar keppni sem við kjósum að kalla Brokk & Skokk. Brokki & Skokki verður hleypt af stokkunum við Skaftholtsrétt kl. 14:00. Keppnin er fyrir alla, jafnt fjölskyldur sem þjálfaða íþróttamenn, unga sem aldna. Tveir knapar og einn hestur er í hverju liði. Markmiðið er að koma fyrstur í mark eftir ákveðna leið þar sem knapar skiptast á að vera á baki, en ganga þess á milli.
Hér fyrir neðan má sjá reglugerð sem gildir fyrir keppnina, sem og upplýsingar um skráningu vegna þáttöku.
Nauðsynlegt er að skrá knapa og hross á netfangið brokk.og.skokk@gmail.com fyrir miðnætti föstudaginn 21. júní.
![]() |
Reglugerð Brokks & Skokks. |
Reglugerð fyrir Brokk & Skokk sem haldið er þann 23. júni 2013 í Skaftholtsréttum (byggt á reglum Ride and tie).
1. Hvert lið samanstendur af einum hesti og tveimur knöpum.
2. Knöpum á hestbaki er skylt að bera viðurkenndan öryggishjálm.
3. Allir þátttakendur og aðstoðamenn í braut skulu klæðast öryggisvestum á meðan á keppni stendur, sem aðstandendur keppninnar útvega.
4. Beislabúnaður með tunguboga er ekki leyfilegur.
5. Fjölskyldurhringurinn er um það bil 2,8 km að lengd. Í honum eru engar skiptistöðvar og má skipta um knapa hvenær sem er. Ekki er leyfilegt að binda hest úti á víðavangi og fara frá honum. Heimilt er að teyma undir börnum yngri en 8 ára allan hringinn.
6. Íþróttahringurinn er um það bil 6 km langur. Í honum eru fimm stöðvar þar sem aðstoðarmenn halda í hesta. Skipta verður um knapa á að minnsta kosti fjórum skiptistöðvum. Auk þess má skipta um knapa úti á víðavangi að vild. Þó er ekki leyfilegt að binda hest úti á víðavangi og fara frá honum.
7. Aðstoðarmaðurinn á skiptistöð getur neitað að halda í hest ef hesturinn lætur illa eða ef hann heldur í fleiri en 4 hross.
8. Aðstoðarmenn á skiptistöðvum eru ávallt 3 eða fleiri.
9. Það lið sem kemur fyrst í mark í heild sinni vinnur keppnina.
10. Ávallt skal hafa velferð hesta í huga og verður liði vísað úr keppni ef vart verður við grófa reiðmennsku.
04.06.2013 13:20
ATH ATH !!
Vegna dræmrar þátttöku verður ekkert af áður auglýstu íþróttamóti Smára og Loga og sameiginlegu töltmóti Smára, Loga og Trausta.
- 1