Lög og Samþykktir


Lög félagsins

 

 

1. grein

Nafn félagsins er Hestamannafélagið Smári. Heimili þess og varnarþing er á heimili formanns hverju sinni.

 

2. grein

Tilgangur félagsins er að stuðla að hestamennsku félagsmanna, velferð hesta, góðri tamningu og vekja athygli á hestaíþróttum. Þessum tilgangi hyggst félagið ná meðal annars með því:

·      Að fræða félagsmenn almennt um hesta, tamningu þeirra, aðbúnað, hirðingu, fóðrun, þjálfun og annað sem viðkemur velferð þeirra.

·      Að efla áhuga barna og unglinga á hestamennsku.

·      Að eiga góðan keppnisvöll og halda þar keppnir.

·      Að stuðla að lagningu reiðvega sem víðast á svæði félagsins og viðhalda þeim eins og efni og aðstæður leyfa.

 

3. grein

Félagsmenn geta allir orðið sem áhuga hafa á málefnum félagsins og hlíta lögum þess. Félagar að 16 ára aldri greiða ekki félagsgjald en hafa hvorki atkvæðisrétt á fundum né kjörgengi í stjórn félagsins.

Umsókn um inngöngu í félagið skal senda stjórn félagsins þar sem fram kemur nafn, kennitala, heimilisfang og netfang. Þegar stjórn félagsins hefur samþykkt umsóknina og umsækjandi greitt félagsgjald yfirstandandi starfsárs telst hann fullgildur félagi. Félagi öðlast keppnisrétt er hann hefur verið einn mánuð á félagaskrá.

Úrsagnir úr félaginu skulu vera skriflegar og sendast stjórninni eigi síðar en á aðalfundi.

 

4. grein

Stjórn félagsins skipa fimm menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi, kosnir til tveggja ára í senn. Annað árið skal kjósa formann og einn stjórnarmann en hitt árið þrjá stjórnarmenn. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Verði stjórnarmaður sem hálfnaður er með kjörtímabil sitt kjörinn formaður skal kjósa annan í hans stað. Kjósa skal þrjá varamenn árlega og er sá fyrsti varamaður sem flest atkvæði hlýtur. Formaður boðar stjórnarfund svo oft sem þurfa þykir. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans. Ritari skráir fundargerðir og gjaldkeri sér um fjármál félagsins, annast innheimtu og gerir fjárhagsáætlun. Stjórn skal varðveita sögu og eigur félagsins.

 

 

5. grein

Á innanfélagsmóti skulu hestar sem taka þátt í gæðingakeppni vera í eigu félagsmanna og hafi þeir ekki tekið þátt í gæðingakeppni annara félaga sama ár. Leggja skal samþykktir Landssambands hestamanna (L.H.) til grundvallar við skipulagningu og framkvæmd viðburða er varða íslenska hestinn. Þeir sem koma fram í nafni félagsins á mótum þess skulu vera snyrtilega búnir og vera félaginu í hvívetna til sóma.

 

6. grein

Félagsfundir eru boðaðir af stjórn og skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir eða ef 10 félagsmenn óska þess skriflega og tilgreina fundarefni. Fundur skal boðaður með fimm daga fyrirvara með auglýsingu á vefsíðu félagsins, á samskiptamiðlum eða með bréflegri tilkynningu.

 

7. grein

Aðlafundur fer með æðsta vald félagsins. Hann skal halda í janúarmánuði ár hvert og boða skal til hans með minnst 14 daga fyrirvara. Dagskrá aðalfundar er:

1.     Fundargerð síðasta aðalfundar lesin upp

2.     Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar

3.     Skýrsla stjórnar

4.     Skýrslur nefnda

5.     Lagabreytingar ef fram koma

6.     Kosning stjórnar og varastjórnar

7.     Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara

8.     Ákvörðun félagsgjalds

9.     Fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár lögð fram

10.  Önnur mál

 

8. grein

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Aðalfundur ákveður félagsgjald sem greiðist fyrir 1. mars ár hvert. Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjald fyrir 30 maí skal hann tekinn af félagaskrá. Félagsmaður sem skuldar félagsgjald frá fyrra ári eða stendur í skuld við félagið hefur engin réttindi í starfi félagsins á nýju starfsári fyrr en hann hefur að fullu greitt skuld sína. Hafi félagsmaður náð 65 ára aldri ber honum eigi skylda til að greiða félagsgjöld til félagsins.

 

9. grein

Lögum félagsins verður ekki breytt nema á löglega boðuðum aðalfundi og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að samþykkja lagabreytingar. Í fundarboði skal geta fyrirliggjandi lagabreytinga.

 

10. grein

Stjórn félagsins er heimilt að stofna nefndir innan þess og skulu þær bundnar af lögum félagsins og starfslýsingum sem stjórn setur á hverjum tíma. Nefndir sem hafa fjármuni undir höndum skulu gera skil til stjórnar strax að loknum störfum, eigi síðar en 1. desember.

 

11. grein

Ef um er að ræða að leysa upp félagið verður það að gerast á lögmætum aðalfundi, þar sem mættir eru minnst 20% atkvæðisbærra félagsmanna.

Verður það þá því aðeins gert að 2/3 tveir þriðju hlutar þeirra greiði því atkvæði, án tillits til þess hve margir eru mættir á fundinum. Sé samþykkt að leggja félagið niður skal boða til auka aðalfundar til að staðfesta niðurstöðuna.

Verði félagið þannig leyst upp, skal varðveita eignir þess í viðskiptabanka félagsins. Verði ekki næstu 10 ár stofnað félag á starfssvæði félagsins sem starfar í líkum anda og lög þessi benda til, skal oddvitum á svæðinu falin ráðstöfun á eignum þess.

 

 

Samþykkt á aðalfundi 26. janúar 2015

 

Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 44
Flettingar í gær: 244
Gestir í gær: 44
Samtals flettingar: 2085095
Samtals gestir: 302891
Tölur uppfærðar: 7.4.2020 15:26:02